*

föstudagur, 25. september 2020
Erlent 11. maí 2016 15:00

Google bannar smálánaauglýsingar

Leitarvél Google mun ekki birta auglýsingar fyrir lán þar sem gjalddagi er innan við 60 daga frá lántöku.

Ritstjórn

Leitarvél vefrisans Google mun nú, frá og með deginum 13. júli, hætta að birta auglýsingar fyrir smálánafyrirtæki. Þetta gerir fyrirtækið vegna þess að stórt hlutfall tekinna smálána á heimsvísu enda í greiðslufalli, þar eð erfitt er að greiða til baka á vöxtunum sem slík fyrirtæki setja oftar en ekki.

Frá og með 13. júlí munu því auglýsingar smálánafyrirtækja, þar sem gjalddagi er settur innan 60 daga frá lántökunni, verða teknar út úr auglýsingakerfum Google.

Auglýsingar fyrir annars konar viðurkennd lán á borð við húsnæðislán, bílalán og námslán verða ennþá leyfileg auk auglýsinga fyrir kreditkort og aðrar sambærilegar þjónustur. Í Bandaríkjunum verða þá einnig bannaðar þær auglýsingar fyrirtækja sem bjóða upp á lán með meira en 36% árlegum vöxtum. 

Google eyðir að sögn út meira en 780 milljón auglýsingum á ári hverju. Flestar selja þær falskar vörur eða eru til þess gerðar að hafa lykilorð eða aðrar persónulegar upplýsingar af notendum.

Stikkorð: Google Auglýsingar Smálán Tækni