Google tilkynnti í dag að til stendur að aka um götur Íslands með það fyrir augum að bæta gæði Íslandskorta á Google Maps kortavefnum og safna myndum til notkunar í Street View þjónustunni vinsælu. Á morgun munu bílar á vegum Google hefja aksturinn og taka 360 gráðu víðmyndir (e. panorama) af borgum, bæjum og þorpum og vegunum þar á milli. Þær verða nýttar á komandi mánuðum, fyrir Íslendinga, ferðamenn og netverja sem vilja kanna mögulega áfangastaði og kynnast landinu betur.

Street View þjónustan nær nú þegar til 50 landa víðs vegar um heiminn. Með henni geta notendur kannað heiminn í eigin tölvu og þrætt sig í gegnum borgarhverfi með hjálp víðmynda af götunum. Þjónusta þessi er einnig í boði sem hluti af Google Earth og Google Maps for Mobile.

Aksturinn hefst í Reykjavík og nágrenni en svo verður haldið út á land og bæir og þorp mynduð með sama hætti. Gert er ráð fyrir að mynda eins mikið af vegakerfinu og hægt er næstu tvo mánuðina. Akstursáætlun ræðst þó af utanaðkomandi þáttum, svo sem veðri, lokunum vega, o.s.frv. Veittar verða nákvæmari upplýsingar um hvar bílarnir eru - og almennar upplýsingar um Street View - á vefsíðunni maps.google.is/streetview.