Snjallbíll Google hefur nú lent í sínu fyrsta umferðarslysi sem var forritun bílsins sjálfs að kenna. Bíllinn klessti á strætisvagn á götum Kaliforníu nýlega, en Google hefur lýst umferðaraðstæðunum sem bíllinn keyrði í sem erfiðum. Bíllinn var af gerðinni Lexus RX450h en er með innbyggða aksturstölvu og háþróaðan tæknibúnað sem les umhverfið kringum bílinn í rauntíma og tekur ákvarðanir um hvernig bíllinn keyrir að hverju sinni.

Það sem gerðist var að snjallbíllinn var á leið sinni út af veginum en sandpokar voru í vegi fyrir útgöngureininni. Þá ætlaði bíllinn að færa sig inn á miðrein vegarins aftur og beygja fram hjá sandpokunum, þegar strætisvagninn kom keyrandi.  Tölva bílsins gerði þá ráð fyrir því að vagninn myndi hægja á sér og hleypa bílnum inn í umferðina, en hann hélt áfram og snjallbíll Google klessti á hlið vagnsins. Þó var Google-bíllinn aðeins á um 3km/h hraða og strætisvagninn á 24 kílómetra hraða.

Enginn slasaðist við áreksturinn. Kantur Google-bílsins beyglaðist þó lítillega, og skynjarar fóru á skjön. Talsmenn sjálfsakstursdeildar Google hafa sagt að atvikið hefði vel getað orðið með mann undir stýri, og að í raun gerðust slík óhöpp í hundruðatali um Bandaríkin öll á degi hverjum.