Bréf Google hækkuðu um 18% á fyrsta degi viðskipta í Bandaríkjunum í gær. Endaði gengi bréfanna í rétt rúmum 100 dollurum. Miklar væntingar eru til fyrirtækisins en samtals verðmæti þeirra hluta sem voru boðnir út var 1,7 milljarðar dollara sem er nokkuð lægra en þeir 3,6 milljarðar dollara sem gert var ráð fyrir í upphafi.

Hækkunin á bréfum fyrirtækisins er í sjálfu sér jákvæð en hefur hins vegar vakið upp spurningar hvort rétt hafi verið staðið að hlutafjárútboðinu, sem var með óvenjulegri hætti en tíðkast.

Eins og útboðið var sett upp var því ætlað að meta raunhæfa eftirspurn eftir bréfum félagsins en svo virðist sem fjárfestar hafi haldið að sér höndunum þar til bréfin komust á svokallaðan eftirmarkað.

Meira en 22 milljónir Google-bréfa skiptu um hendur á markaðinum í gær, en þar með komst félagið í hóp 10 veltuhæstu bréfa Nasdaq markaðarins. Lokaverðið, 100, 34 dollarar, var rúmum 15 dollurum hærra en þeir 85 dollarar sem bréfin voru boðin út á - en hins vegar nokkuð lægra heldur en þeir 108 dollarar sem bjóða átti bréfin í upphafi.

Gert er ráð fyrir að starfsmenn Google sem hafa fengið hlutabréf í félaginu á mun lægra verði auk fjölda valréttasamninga muni hagnast vel á næstu 180 dögum, þar sem þeim býðst að innleysa gengishagnað sinn. Það er því að vænta mikils magns Google-bréfa á næstu mánuðum segir Scott Kessler hjá Greiningu Standard & Poor.

Samkvæmt greiningu hjá Salary.com eru u.þ.b. eitt þúsund starfsmenn Google þegar orðnir "pappírs" milljónamæringar en alls vinna um 2.300 manns hjá Google.