Netrisinn Google skilaði hagnaði upp á 4,76 milljarða Bandaríkjadali á síðasta ársfjórðungi. BBC News greinir frá þessu.

Þetta er töluvert betri niðurstaða en á sama ársfjórðungi fyrir ári síðan og jókst hagnaðurinn um 30%. Hins vegar voru tekjur fyrirtæksins nokkru minni en búist hafði verið við.

Tekjurnar jukust þó frá því sem var fyrir ári síðan um 15% og námu þær nú 18 milljörðum dala. Er það nærri sama fjárhæð og Apple hagnaðist um á síðasta ársfjórðungi.

Gengi Bandaríkjadals styrktist umtalsvert á tímabilinu og segir Google það hafa haft mikil áhrif á tekjutölurnar. Þannig hefði fyrirtækið misst af um hálfum milljarði dala vegna styrkingar gjaldmiðilsins.

Hlutabréf í Google lækkuðu um 2% við birtingu uppgjörsins í gær, en þau náðu sér þó aftur á strik eftir því sem leið á daginn.