Google hefur kynnt sinn fyrsta farsíma sem talinn er eiga eftir að veita hinum gríðarlega vinsæla iPhone frá Apple samkeppni á jólagafamarkaðnum.

Síminn kallast Dream og er framleiddur af HTC í Taívan. Í Bretlandi verður hann eingöngu fáanlegur með þjónustu frá TMobile farsímafyrirtækinu.

Búist er við að síminn komi í verslanir í nóvember. Hann styðst við nýja farsímakerfið Android sem Google hefur ýtt úr vör.

Hann verður með útdraganlegu Qwerty-lyklaborði og með innbyggðu GPS-staðsetningakerfi. Þá styður hann ýmsar veflausnir Google eins og tölvupóstþjónustuna Gmail, Google Docs og Google Maps.

Enn fremur er talið líklegt að hann verði með nýja netvafranum Chrome frá Google.