Google mun fjárfesta 10 milljörðum dollara á Indlandi, þar á meðal í innviðum og hlutabréfafjárfestingum, á næstu fimm til sjö árunum, en þetta sagði Sundar Pichai, forstjóri móðurfélagsins Alphabet, á árlegum fundi félagsins á Indlandi.

Fjármagnið verður nýtt til að þróa vörur og þjónustu fyrir Indland, aðstoða fyrirtæki að verða stafrænni og nota tækni „fyrir almannaheill“. „Þetta endurspeglar trú okkar á framtíð Indlands og stafræna hagkerfi þess,“ hefur BBC eftir Pichai.

Stórt tækifæri fyrir tæknirisana

Indverski markaðurinn markar eitt af stærstu tækifærum fyrir tæknifyrirtæki eftir að hundruðir milljóna Indverja byrjuðu að nota snjallsíma og hafa fengið aðgang að internetinu á síðustu árum. Google Pay, greiðsluþjónusta fyrirtækisins, hefur vaxið hratt frá því að henni var hleypt af stokkunum á Indlandi árið 2017.

Tilkynningin kemur þremur mánuðum eftir að Facebook fjárfesti 5,7 milljörðum dollara í indverska fjarskiptafélaginu Jio Platforms. Í janúar sagði Amazon að það hygðist fjárfesta einum milljarði dollara á Indlandi. Apple hefur einnig stækkað hlut Indlands í framleiðslukeðju Iphone-símanna í gegnum birginn Foxconn.

Kínversku netrisarnir Tencent og Alibaba ásamt öðrum kínverskum áhættufjárfestingarfélögum eru einnig meðal stærstu fjárfesta í indverskra tæknigeiranum. Í apríl voru þó innleidd ný lög sem kveða á um að allir kínverskir fjárfestar þurfi leyfi frá indverskum stjórnvöldum til að fjárfesta á Indlandi.

Aðgangur Google að indverska símamarkaðnum er einkum mikilvægur fyrir fyrirtækið þar sem það hefur ekki leyfi til að starfa í Kína og sér fram á erfiðara rekstrarumhverfi í Hong Kong vegna nýrra þjóðaröryggislaga, segir í frétt Financial Times .