Sergey Brin, annar stofnenda Google, hyggst nú halda út í geim. Hann hefur þegar bókað sæti í fyrirhugaðri geimferð sem fyrirtækið Space Adventures stendur fyrir. Sætið kostaði Brin litlar 5 milljónir bandaríkjadala. Reuters greinir frá þessu. Space Adventures er nú að safna saman hópi fólks sem mun fara í ferðina. Áfangastaðurinn mun vera alþjóðlega geimstöðin, ISS. Mun hver og einn þurfa að borga 5 milljónir bandaríkjadala en ráðgert er að ferðin kosti rúmar 35 milljónir bandaríkjadala í heildina. Fyrirtækið hefur hingað til selt vel stæðum mönnum far með rússneskum geimflaugum. Ný hyggst Space Adventures hins vegar smíða sína eigin geimflaug sem yrði sniðin að einkamarkaði. Ráðgert er að ferðirnar geti hafist 2011.