Bandaríski netrisinn Google hefur tekið tvö gagnaver í Asíu í notkun. Þau eru í Taívan og Síngapúr. Þetta eru fyrstu gagnaver fyrirtækisins í álfunni. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir ástæðuna fyrir því að fyrirtækið opni gagnaverin þarna en ekki annars staðar þá að rúmur helmingur jarðarbúa eigi heima í þessum heimshluta. Fleiri þar séu að tengjast netinu og tryggi gagnaver Google þar gagnaflutning til þeirra.

BBC hefur eftir stjórnanda hjá Google í Asíu að vöxturinn ytra sé gífurlegur. Á þriðja ársfjórðungi hafi 60 milljónir manna í Asíu bæst í hóp þeirra sem nýti sér gagnaflutning í síma. Það jafngildi tvöföldum íbúafjölda í Kanada eða þreföldum fjölda íbúa Ástralíu. Ekki er gert ráð fyrir að hægja muni á vextinum á næstunni, að hans mati.

Mestu munar um vöxt kínverskra netnotenda. Þeir eru nú um stundir 500 milljón talsins. Á Indlandi eru netnotendur orðnir 200 milljón talsins.