Bandaríska netfyrirtækið Google hefur tekið til hliðar 90 milljónir dollara sem eru eyrnamerktir nýjum sjóði og er ætlunin að nota féð til ýmisa góðgerðar- og líknarmála. Verður sjóðnum einkum ætlað að létta á fátækt og ýta við þróun nýrra orkugjafa og í þágu umhverfisvænna málefna eins og kemur fram í Financial Times.

Þetta kemur í kjölfar loforða sem fyrirtækið gaf þegar sala hlutafjár fór fram fyrir skráningu þess á síðasta ári. Allt var það kynnt undir slagorðinu, Gerum heiminn að betri stað. Nú telja þeir Google-menn kominn tíma til að efna loforðið.

Góðgerðarstarfsemi Google verður vistuð undir nafninu Google.org og er þegar búið að úthluta fyrsta framlaginu. Það fellst í tveggja milljón dollara framlagi til samtaka sem nú vinna að því að þróa fartölvu sem aðeins mun kosta 100 dollara. Að sjálfsögðu verður hún einföld að allri gerð enda mun hún ekki notast við Windows stýrikerfið sem hlýtur að falla þeim Google mönnum vel í gerð þar sem Microsoft er jú þeirra helsti andstæðingur.

Að sögn Sheryl Sandberg, varaforseta Google, er úthlutunum fyrirtækisins ekki ætlað að vera í neinum tengslum við viðskiptastefnu þess eða eiga í það minnsta að hafa fullkomið sjálfstæði gegnvart því. Sandberg hefur umsjón með þessum þætti fyrirtækisins.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.