Google-gleraugun voru kynnt í höfuðstöðvum fjarskiptafyrirtækisins NOVA um síðustu helgi. Gleraugun virka á svipaðan hátt og snjallsími en notendur gefa tækinu skipanir með röddinni í stað þess að stimpla þær inn á hnappaborð með fingrunum. Að auki geta notendur nálgast upplýsingar það sem þeir sjá í raunveruleikanum með því að fletta þeim upp í Google.

„Ef þú röltir til dæmis í útlöndum og sérð byggingar þá geturðu séð upplýsingar um byggingarnar í gleraugunum sem gengið er framhjá,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson markaðsstjóri hjá Nova.

Hann segir að með símanum sé einnig hægt að taka kvikmyndir, ljósmyndir og fá GPS leiðbeiningar til að komast á milli staða. Guðmundur segir að nokkur hundruð manns hafi lagt leið sína til Nova á laugardaginn til að að prófa gleraugun og taka mynd af sér með þau fyrir framan spegilinn.