Google hefur gefist upp á því að spyrja fólk óhefbundinna spurninga í atvinnuviðtölum. Spurningarnar voru algjör tímaeyðsla og gagnslausar að sögn Laszlo Bock aðstoðarforstjóra Google í samtali við The New York Times.

Spurningar sem snúast um hve margar golfkúlur komast fyrir í rútu eða hvað kosti að þvo alla glugga í Seattle áttu að meta hæfni starfsmanna samkvæmt ákveðinni spurningatækni í atvinnuviðtölum. En Bock segir að það eina sem fékkst út úr því að spyrja slíkra spurninga var að láta þann sem stjórnaði viðtalinu líða eins og hann væri gáfaður.

Í dag er fólk sem fer í atvinnuviðtöl hjá Google frekar látið segja frá því þegar það leysti ákveðið vandamál og hvernig það fór að því. Fyrirtækið hefur einnig minnkað vægi einkunna þegar kemur að vali starfsmanna.