*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Erlent 23. júní 2017 18:51

Google hættir að skanna tölvupóst

Skýþjónusta Google hefur gert breytingar á Gmail til að keppa við Microsoft.

Ritstjórn

Google hefur ákveðið að hætta einni af umdeildustu auglýsingaaðferðum fyrirtækisins sem felst í því að auglýsingar í Gmail tölvupóstkerfinu skanna innihald tölvupósts. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg. Ákvörðunin mun ekki hafa komið frá auglýsingadeild fyrirtækisins heldur frá skýþjónustu Google. Er markmiðið með breytingunni að ná til fleiri viðskiptavina á fyrirtækjamarkaði.

Skýþjónusta Google býður upp á skrifstofuhugbúnað sem kallast G suite. Er hugbúnaðinum ætlað að keppa við Microsoft sem er stærsta fyrirtækið á markaði fyrir skrifstofulausnir. Þrátt fyrir að þeir viðskiptavinir sem borguðu fyrir þjónustu Google hafi aldrei fengið auglýsingar sem skönnuðu innihald tölvupóst, ríkti óvissa um hvort svo væri.

Auglýsingar munu áfram birtast í gjaldfrjálsu útgáfunni af Gmail en í staðinn fyrir að skanna tölvupóstanna þá munu auglýsingarnar birtast út frá persónulegum upplýsingum um viðskiptavini.

G suite hugbúnaðarlausnin er í dag notuð af 3 milljónum viðskiptavina sem greiða fyrir lausnina. Hefur fjöldi viðskiptavina tvöfaldast á síðastliðnu ári.

Stikkorð: Google Gmail