Guðmundur Hafsteinsson, vöruþróunarstjóri Google Assistant hjá samnefndu fyrirtæki, hefur starfað í hringiðu þeirra miklu tæknibreytinga sem hafa átt sér stað og eru að eiga sér stað í heiminum í dag. Guðmundur hefur verið í leiðandi hlutverki í nýsköpunarverkefnum tveggja af stærstu tæknifyrirtækjum heims, Apple og Google.

Skjárinn hættir að koma upp á milli okkar

Guðmundur segir eðli tækninnar vera að breytast en það er einmitt umfjöllunarefni erindis hans á Þekkingardegi Félags við- skipta- og hagfræðinga á morgun. „Tæknin hefur verið dálítið flókin. Sum þeirra tækja sem við notum dagsdaglega eru enn erfið í notkun. Að miklu leyti kemur það til  vegna þess að við þurfum að læra á tæknina frekar en að tæknin læri á okkur. Núna er að koma fram ný tegund af viðmóti sem snýr þessu við. Nú munu tækin aðlaga sig að því hvernig við höfum samskipti,“ segir hann og telur að greina megin áhrifin í þrennt.

„Í fyrsta lagi munu möguleikar á því hvaða tæki þú getur átt samskipti við verða fleiri og víðtækari. Þannig að í staðinn fyrir að það séu aðeins eitt eða tvö tæki mun þetta verða nánast hvaða tæki sem er. Í öðru lagi þýðir það að tæknin mun í meiri mæli verða með okkur. Hún verður til staðar þegar við þurfum á henni að halda, maður mun bara geta kallað á hana og hún kemur.

Það þriðja er að tæknin mun meira hverfa í bakgrunninn. Hún er meira til staðar en samt ekki fyrir okkur. Í dag eru allir að horfa í símana sína og skjárinn er alltaf á milli okkar og allra annarra. En breytingin er sú að við munum geta leyft tækninni að vera til staðar án þess að hún komi upp á milli okkar,“ segir hann og tekur dæmi til nánari útskýringar.

„Um daginn var ég að borða með dætrum mínum og þetta var um það leyti sem tunglmyrkvinn átti sér stað og dóttir mín spurði mig hvað blóðmáni væri. Var búin að heyra fólk tala um blóðmána og fannst það eitthvað skrítið. Þá sagði ég bara „Hey Google what‘s a Blood Moon“ og þá kom svarið. Það góða við þetta var að í fyrsta lagi þurfti ég ekki að fara í símann minn sem hefði eiginlega bara drepið samtalið. Í öðru lagi kom svarið inn í samtalið þannig að þær heyrðu það allar og það leiddi til frekari umræðu. Þannig að tæknin var til staðar fyrir mig og hún hjálpaði mér að tengjast frekar við annað fólk beint í stað þess að taka athyglina frá fólkinu. Tæknin er að verða þannig að þú getur tvinnað hana inn í lífið án þess að hún þurfi að vera yfirráðandi,“ segir Guðmundur.

Hann segir aðspurður að ferlið að baki því að smíða vöru á borð við Google Assistant sé flókið. „Það sem er áhugavert við svona verkefni og vandamálin sem koma upp er að það er engin ein lausn. Ef þú horfir á vöru eins og Google Assistant þá er þetta sambland af mörgum kerfum sem koma saman og þau eru að glíma við mismunandi þætti vandamálsins. Svo er þessu öllu steypt saman þegar þú færð svarið til baka. Þetta er í rauninni ekki bara einn pakki sem er settur niður heldur hafa mismunandi hlutar kerfisins mismunandi eiginleika. En þetta er gífurlega flókið verkefni og ég bý vel að því að búa yfir svona flottu teymi sem kann að glíma við svona flókin verkefni,“ segir hann.

Íslenskan ekki glötuð

Spurður hver staða íslenskunnar sé í samhengi raddgreinandi tækja segir Guðmundur: „Ég er ánægður með að það sé vakning í því að menn eru farnir að hugsa um þetta í stærra samhengi. Bæði hvað þetta þýði fyrir tungumálið og íslensku þjóð- ina. Ég þekki ekki nákvæmlega til þess hvar vinnan er stödd en mér finnst þetta gífurlega áhugavert.“

En þú þurftir að skipta yfir á ensku í samtali við dætur þínar til þess að spyrja Google um blóðmánann?

„Það er rétt en að sama skapi er tæknin líka að verða þannig að hún getur þýtt jafnóðum á milli íslensku og ensku. Það er eitt af því sem ég fer yfir á fundinum á föstudaginn. Ég tel að til langs tíma muni þetta vinna vel saman,“ segir hann en á honum er að skilja að hann líti ekki svo á að framþróun tækninnar feli í sér dauðdóm íslenskunnar.