Google Inc. er að undirbúa að senda frá sér stýrikerfi fyrir einkatölvur. Fyrst í stað verður stýrikerfið hannað fyrir ódýrar fartölvur. Stýrikerfið verður byggt á Chrome Web vafra Google og verður tilbúið á seinni hluta næsta árs.

Þetta kemur fram í frétt WSJ sem segir þetta beina atlögu að Microsoft Corp., framleiðanda Windows-stýrikerfisins.

Nýja stýrikerfið verður létt í keyrslu og hugsað til að keyra forrit af vefnum, eftir því sem WSJ hefur eftir bloggfærslu yfirmanna hjá Google. Með stýrikerfinu vill Google takast á við ákveðin vandamál í einkatölvum, þ.m.t. öryggisvanda og þann langa tíma sem það taki að ræsa tölvur.

Áformað er að í framtíðinni verði stýrikerfið stækkað þannig að það dugi einnig fyrir stórar einkatölvur.