*

mánudagur, 21. september 2020
Erlent 1. nóvember 2019 19:01

Google kaupir Fitbit á 260 milljarða

Google hyggst skáka Apple í snjallheilsutækjum. Ekki er þó talið víst að samkeppnisyfirvöld samþykki samrunann.

Ritstjórn
Sundar Pichai, framkvæmdastjóri Google.
european pressphoto agency

Tæknirisinn Google hefur samið um að kaupa snjallheilsutækjaframleiðandann Fitbit fyrir 2,1 milljarð dala, jafnvirði um 260 milljarða króna. Kaupin eru í frétt Financial Times um málið sögð gerð með það fyrir augum að bjóða Apple byrginn á ört vaxandi markaði fyrir slík tæki.

Yfirvöld eiga þó enn eftir að samþykkja samrunann. Gagnasöfnun og samkeppnisheftandi hegðun tæknirisa hefur verið mikið í umræðunni og ofarlega í hugum eftirlitsstofnana og stjórnmálamanna nýverið. Hljóti kaupin ekki náð fyrir augum smakeppnisyfirvalda hefur google skuldbundið sig til að greiða Fitbit 250 milljón dali, um 31 milljarð króna, fyrir ómakið.

Óvíst hvort neytendur treysti Google fyrir viðkvæmum upplýsingum
Þá er það sagt opin spurning hvort notendur Fitbit muni treysta Google fyrir heilsufarsupplýsingum á borð við þyngd, svefn og tíðarhring. Því hefur þó verið heitið að slíkar upplýsingar verði ekki notaðar í auglýsingaskyni, og notendur muni geta skoðað og eytt þeim gögnum sem um þá er safnað.

Verðmiðinn er tæpum fimmtung yfir markaðsvirði Fitbit – sem er skráð félag – við lokun markaða í gær, en þó talsvert undir því 4 milljarða dala markaðsvirði sem það hafði við skráningu á markað fyrir fjórum árum síðan.

Stikkorð: Google Fitbit