Bandaríska veffyrirtækið Google er að kaupa bandaríska farsímaframleiðandann Motorola Mobility, sem meðal annars framleiðir Android snjallsíma, á 12,5 milljarða Bandaríkjadala, 1.439 milljarða króna. Þetta er langstærsta fjárfesting Google frá upphafi en þetta er liður í að styrkja farsímahluta Google. Samkvæmt samkomulaginu greiðir Google 40 dali fyrir hvern hlut í Motorola sem er 63% hærra verð en lokagildi félagsins í síðustu viðskiptum fyrir yfirtökutilboðið. Með yfirtökunni verður Google í framleiðslu á farsímum og því í beinni samkeppni við Apple.