Eftir lokun markaða á fimmtudag skilaði net fyrirtækið Google uppgjöri. Fjárfestar biðu spenntir eftir uppgjörinu og áttu menn von á að niðurstöður þess gætu haft áhrif á hvernig markaðurinn þróaðist. Uppgjör Google, fyrir fyrsta ársfjórðung 2005, var vel yfir væntingum markaðsaðila. Hagnaður félagsins sexfaldaðist milli ára og nam 369,2 m.USD eða sem nemur 1,29 dollurum á hlut, samanborið við 64 m. USD hagnað árið á undan og 24 senta hagnað á hlut eins og bent var á í Vegvísi Landsbankans.

Spá markaðsaðila um hagnað á hlut hljóðaði upp á 0,77 - 1,13 dollara á hlut. Tekjur félagsins jukust um 93%, úr 651,6 m.USD í 1,26 ma.USD. Hreinar tekjur Google (að t.t.t. tekna til samstarfsaðila) nema 794 m.USD samanborið við 380,6 m.USD í fyrra, sem er yfir meðal væntingum markaðsaðila upp á 731,1 m.USD.

"Samkvæmt stjórnendum Google er tekjuvöxturinn tilkominn vegna aukinnar umferðar um vef þeirra og gæða þeirra auglýsinga sem um hann fara. Vöxtur auglýsinga er einnig að skila tekjum, en fyrirtæki gera sér í æ meira mæli grein fyrir áhrifamætti auglýsinga á netinu," segir í Vegvísi Landsbankans. Bréf félagsins hækkuðu um 9,16% á eftirmarkaði á föstudaginn.