Tæknirisinn Google hefur boðist til að greiða 8,5 milljónir dala, jafnvirði tæplega einum milljarði íslenskra króna, og ná þannig sáttum í málaferlum gegn félaginu.

Í febrúar síðastliðnum opnaði Google nýja heimasíðu er heitir Buzz og átti að vera svar Google við Facebook. Allir notendur Gmail, tölvupóstsþjónustu Google, urðu sjálfkrafa þátttakendu á hinni nýju Buzz-heimasíðu og byggðist vinalisti á viðtakendalista tölvupóstsins.

Sjö einstaklingar kærðu Google fyrir brot gegn persónuverndarlögum. Ef þeir samþykkja tilboð Google fá þeir hver um sig um 2500 dali í vasann, tæplega 300 þúsund krónur. Um þriðjungur heildarupphæðar fer í málskostnað og afgangur mun renna til ýmissa fyrirtækja sem berjast fyrir persónuvernd á internetinu.

Sáttartillagan gerir einnig ráð fyrir að Google kynni persónuvernd betur fyrir notendum Buzz. Tillagan þarfnast samþykki dómara en virðist að öðru gengin í gegn samkvæmt frétt BBC um málið.