*

laugardagur, 26. september 2020
Erlent 25. nóvember 2019 14:46

Google og Apple í bestri stöðu

Umsjón stóru snjalltækjastýrikerfanna setur risana tvo í einstaka stöðu til að hasla sér völl í fjármálaþjónustu.

Júlíus Þór Halldórsson
epa

Bala Kamallakharan, sprotafjárfestir og stofnandi Startup Iceland, segir samkeppnina frá tæknirisum verða harða fyrir lítil upprennandi fjártæknifyrirtæki. „Mörgum mun eflaust gremjast enn frekari valda- og upplýsingasöfnun tæknirisanna, en þetta verður einfaldlega svo hentugt að þegar allt kemur til alls mun það ráða úrslitum.“

Af þeim fyrirtækjum sem hafa verið að hasla sér völl á sviði fjármálaþjónustu nýverið segir hann Google og Apple vera í sterkastri stöðu til að ná undirtökum á markaðnum, einfaldlega vegna þess að þau reka þau tvö stýrikerfi sem svo til öll snjalltæki keyra á. „Bæði öryggisins og þægindanna vegna verður langvænlegast að byggja kerfið beint inn í stýrikerfið sjálft, frekar en inn í forrit sem er keyrt innan stýrikerfisins á borð við Facebook.“

Þegar fram líða stundir sér hann fyrir sér að greiðslukortin sjálf muni svo smám saman hverfa. „Facebook og Google hafa nú þegar gert sumum notendum kleift að senda pening í gegnum messenger og tölvupóst í tilraunaskyni, þótt ekki hafi verið opnað fyrir það hjá öllum notendum enn. Það er ekkert því til fyrirstöðu að þeir opni á þann möguleika fyrir alla.“

Bankareikningar lykillinn
Bankareikningar eru undirstaða frekari fjármálaþjónustu og tilvalinn upphafspunktur fyrir tæknifyrirtæki, þar sem í þeim felast verðmætar upplýsingar um fjárhag notenda.

Ekki er þó víst að tæknirisarnir þurfi sjálfir að bjóða upp á bankareikninga, að minnsta kosti í Evrópu, til að veita alhliða fjármálaþjónustu. Stór áhrifaþáttur í þessari þróun, og nýsköpun og framþróun á sviði fjártækni í víðara samhengi, er hin svokallaða önnur greiðslumiðlunartilskipun Evrópusambandsins (Payment Services Directive 2 eða PSD2). Hún mun taka gildi á næstu misserum, en með henni verður aðskilnaður milli greiðslumiðlunar og fjármálahugbúnaðar og -þjónustu aukinn.

Takist tæknirisunum að samtvinna umfangsmikla gagnagrunna sína, stærðarhagkvæmni og alþjóðlega útbreiðslu, er kominn grunnur að gríðarlega öflugu fjármálafyrirtæki sem gæti skákað stærstu og sterkustu bönkum heimsins, og jafnvel haft áhrif á undirstöður peningamálanna sjálfra þegar fram líða stundir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Apple Google