Google og Microsoft hafa í dag skipst á skotum um meinta hættu sem samkeppni á vefnum stafi af hvoru öðru. Þetta kemur fram hjá WSJ í dag og ástæðan fyrir skeytasendingunum nú er yfirtökutilboð Microsoft í Yahoo, keppinaut Google.

Yfirmaður hjá Google, David Drummond, hefur varpað fram þeirri spurningu hvort að Microsoft geti nú „reynt að hafa sömu óviðeigandi og ólöglegu áhrifin á vefinn og það hafði á einkatölvuna“. Hann sakar Microsoft fyrir að hafa oft reynt að komast í einokunaraðstöðu sem það hafi svo reynt að nýta sér á öðrum mörkuðum.

Microsoft hefur svarað þessu með því að segja að samþætting Microsoft og Yahoo muni auka samkeppni með því að styrkja næst stærsta keppinaut vefsins á sviði leitarvéla og auglýsinga.

Google segir að skyndiskilaboð (e. instant messaging) og vefpóstur séu svið þar sem Microsoft og Yahoo saman mundu hafa yfirgnæfandi markaðsstöðu.

Framkvæmdastjóri Microsoft, Steve Ballmer, hefur á hinn bóginn sagt að á markaðnum fyrir vefauglýsingar sé einn aðili að ná æ sterkari yfirburðum, og á þar við Google.