Google býður nú upp á þjónustu í Egyptalandi sem gerir íbúum kleift að nota Twitter-samskiptasíðu. Þeir sem vilja koma á framfæri skilaboðum á Twitter-síðu sinni geta hringt í ákveðið símanúmer og skilið þar eftir talskilaboð sem síðan fara á Twitter. Stjórnvöld í Egyptalandi hafa lokað á allt internetsamband í landinu og ekki er hægt að senda textaskilaboð með farsímum.

Skilaboðin sem lesin eru inn færast undir flokkinn #egypt á Twitter, að því er kemur fram í frétt Reuters. Um er að ræða samstarfsverkefni Google og Twitter en Google segir að með þessu heyrist vonandi í fleiri röddum egypskra borgara.

Einkennisorð Google eru „Don´t Be Evil“ eða „Ekki vera vondur“. Einn viðmælanda Reuters segir þó að með þessu sé Google ekki að taka málstað eins eða neins í Egyptalandi, heldur eingöngu að stuðla að aðgangi að upplýsingum.