© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Nú er réttur mánuður síðan netrisinn Google leyfði mönnum að gægjast inn fyrir nýja félagsmiðilinn Google Plus. Plúsinn ber þess vissulega merki að vera nýr af nálinni, það er eitt og annað sem þar þarf að bæta og breyta, en það má vel greina hvað Google er að fara með þessari nýjustu afurð sinni.

Til útskýringar á Google Plus er sennilega hentugast fyrir netvana lesendur að segja hann staddan á milli Facebook og Twitter, en mun nær Facebook. Þar geta notendurnir sett inn athugasemdir, stuttar sem langar, ekki ósvipað og gerist á Facebook og Twitter, sem aðrir geta síðan lesið og gert athugasemdir við á móti.

Framkvæmdin er auðvitað ekki eins og útfærslurnar ólíkar. Stóri munurinn er sá að á Plúsnum dregur maður fólk í dilka eða hringi, eins og það er orðað á Plúsnum. Þar geta menn haft fjölskylduna í einum hring, vinina í öðrum, vinnufélagana í þeim þriðja, viðskiptavini í enn einum o.s.frv. Þetta byggir á þeirri einföldu staðreynd að fólk er misnáið öðru fólki, það sem á brýnt erindi við viðskiptavini á sennilegast ekkert erindi við fjölskylduna og öfugt.

Twitter býður enga slíka skiptingu á fólki, yfirlýsingar manna þar geta allir numið, sem áhuga hafa á. Facebook er flóknara með persónuverndarstýringum sínum og þar má stofna hópa og lista, en almennt eru menn að dreifa snilld sinni á alla „vini“ sína.

Í Plúsnum verða notendur hins vegar að skilgreina sérhvern „vin“ sem hluta af a.m.k. einum hópi eigi hann að geta séð eitthvað annað en þá speki notandans, sem ætluð er heimsbyggðinni allri.

Nánari umfjöllun um Google Plus má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.