Að MBA-náminu loknu árið 2005 bauðst Guðmundi að fara að vinna hjá Google þar sem hann vann sem vörustjóri (e. product manager). Starfið felst í því að vinna með hópi verkfræðinga sem eru að vinna að þróun vöru og passað að hún sé að þróast í rétta átt og vinna svo að því að koma henni út.

Guðmundur byrjaði að vinna að Google Maps fyrir farsíma og stýrði markaðssetningu þess. Eftir það fór hann að vinna með talgreinihóp Google þar sem teymið kom raddarleitar-hugbúnaði á markaðinn.

Hvernig var að vinna hjá Google? Er vinnustaðurinn eins ótrúlegur og honum er lýst?

„Þetta er rosalega góður vinnustaður. Það er mjög gott að vera þarna, þar er mikið af kláru fólki og spennandi verkefnum. Þú getur varla fundið eitthvað meira spennandi en að vinna hjá fyrirtæki sem er að þróa bíl sem keyrir sig sjálfur. Það er frír matur og afslappað andrúmsloft. En það er líka unnið alveg gífurlega hart. Það eru langir vinnutímar og fólk vinnur um helgar, það er keyrt áfram. En maður nýtur þess.“

Nánar er rætt við frumkvöðulinn Guðmund Hafsteinsson í Viðskiptablaðinu sem kom út 14. ágúst 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.