Google hefur undirritað samning um kaup á rússneska auglýsingavefnum ZAO Begun og mun greiða 140 milljón dollara fyrir að óbreyttu, eða tæplega 11 milljarða króna. Eru kaupin hluti af þeirri stefnu fyrirtækisins að geta boðið rússneskum notendum og auglýsendum aukna þjónustu, en stafrænar auglýsingar hafa tekið mikinn fjörkipp í Rússlandi að undanförnu.

Mohammad Gawdat, sem stýrir útrás Google til fjarlægra markaðssvæða, segir að kaupin tryggi Rússum betri leitarskilyrði á netinu og auglýsingamöguleika sem séu í takt við nútímaþróun.

40 þúsund auglýsendur

Zao Begun hefur verið starfrækt um sex ára skeið og eru auglýsendur þar um 40 þúsund talsins. Skráðar vefsíður á rússnesku hjá fyrirtækinu eru um 143 þúsund talsins. Höfuðeigandi Zao Begun er Rambler Media, sem heldur einnig úti skilaboðaþjónustu á netinu, fréttavef og vefsíðu þar sem hægt er að gera verðsamanburð á vörum.