Google hefur ráðið til sín einn af umdeildustu fjárfestingabankamönnum tæknigeirans til að veita ráðgjöf í tengslum við yfirtökuslag Microsoft við Yahoo. Maðurinn heitir Frank Quattrone og hefur meðal annars komið við sögu í stórum útboðum, til dæmis á Amazon og Netscape.

Quattrone er þó umdeildur og hefur verið sakaður um að hafa áhrif á gengi fyrirtækja sem hann veitti ráðgjöf. Árið 2003 var hann handtekinn fyrir að hindra framgang réttvísinnar og var dæmdur í 18 í mánaða fangelsi í kjölfarið. Þeim dómi var hins vegar snúið og ákærur látnar niður falla, að því gefnu að hann bryti ekki lög í eitt ár.

Quattrone mun benda Google á tækifæri sem felast í þeim deilum sem hafa sprottið upp af yfirtökutilboði Microsoft á Yahoo. Stjórn Yahoo hefur streist gegn yfirtökunni, og heyrast nú orðrómar um að stærstu netfyrirtæki Bandaríkjanna muni skipta sér í fylkingar. Nefnt hefur verið að Microsoft og News Corp muni mynda bandalag til að takast á við bandalag myndað af Yahoo, Google og AOL.