Google hyggjast fækka starfsmönnum netauglýsingafyrirtækisins Doubleclick um 300. Það er um fjórðungur 1.200 manna starfsliðs DoubleClick í Bandaríkjunum, en um 1.500 manns starfa hjá fyrirtækinu á heimsvísu.

Google keypti DoubleClick fyrir meira en 3 milljarða Bandaríkjadala, sem er stærsta einstaka fjárfesting Google til þessa.

Auk þess að fækka starfsmönnum ætlar Google að selja hluta DoubleClick, deild sem kallast Performic Search Marketing, en sú deild hjálpar auglýsendum að koma auglýsingum á leitarvélar, t.d. þær sem Google á. Að halda henni innan fyrirtækisins byði upp á hagsmunaárekstra, segir í frétt BBC um málið.