Google hefur samþykkt að greiða 22,5 milljónir dollara í sekt, um 2,7 milljarðar íslenskra króna, fyrir að hafa fylgst með netumferð notenda Safari vafrans sem höfðu valið svokallaða "ekki fylgjast með" (e. do not track) stillingu á vafranum. Um er að ræða stærstu sekt sem eitt einstakt fyrirtæki hefur greitt til Bandaríska alríkisviðskiptaráðsins (e. US Federal  Trade Commission). Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Þrátt fyrir að samþykkja fésektina þá þarf Google ekki að viðurkenna neina sekt í málinu. Það er sektað þar sem fyrirtækið gaf villandi hugmynd um hvað það var að gera en ekki fyrir að sniðganga stillingar notenda.

Málið komst upp eftir að rannsakandi við Stanford háskóla komst á snoðir um að Google væri að nýta sér galla sem gerði þeim kleyft að setja inn svokallað kökur hjá notendum í gegnum auglýsingar, þrátt fyrir að notendur hefðu valið að hafna kökum. Með þessu gat fyrirtækið fylgst með netnotkun notenda þrátt fyrir að þeir hafi ekki gefið leyfi til þess. Leiðin sem Google fór til að sniðganga val notenda var að bæta við kóða við auglýsingar sínar sem gerðu það að verkum að Safari vafrinn hélt að um undantekningu væri að ræða fyrir samþykkt á kökum.

Talsmaður Google segir að engar persónulegar upplýsingar á borð við kreditkortanúmer eða nöfn hafi verið safnað saman. Fyrirtækið heldur því jafnframt fram að þetta hafi verið gert til að aðstoða við dreifingu +1 hnappsins, sem notendur ýta á til að sýna að þeim líki við ákveðnar síður. Um er að ræða viðbót sem kom með samfélagssíðu fyrirtækisins, Google+. Fyrirtækið segist nú hafa fjarlægt auglýsingakökurnar sem aðstoðuðu við að fyrirtækið safnaði saman upplýsingum um notendur Safari vafrans.