Netfyrirtækið Google hefur tryggt sér réttindi til að sjá MySpace síðunum sívinsælu fyrir leitarvél, en fjögur fyrirtæki kepptust um réttinn, segir í frétt The Wall Street Journal.

Google mun greiða fjölmiðlafyrirtækinu News Corp., sem keypti MySpace.com á síðasta ári, að lágmarki 64 milljarða króna á tímabilinu 2007-2010, sé það gefið að gestafjöldi MySpace-síðanna nái ákveðnu lágmarki á þeim tíma. Google mun aftur á móti fá auglýsingpláss á síðum MySpace.com með leitarvél sinni.

MySpace.com er nú af einum vinsælustu síðum á netinu, þar sem um 52 milljónir manna sækja síðuna á hverjum mánuði, en greiningaraðilar höfðu lýst yfir efasemdum um hvort News Corp gæti snúið þessum vinsældum í fjárhagslegan hagnað, segir í fréttinni.

Fjögur fyrirtæki kepptust um réttinn að leitarvél MySpace. Microsoft var eitt af þeim og er talið að það sé fyrirtækinu mikið áfall þar sem Microsoft hafi nýlega tapað uppboðum á svipaðri þjónustu við Time Warner og eBay, segir í fréttinni.