Bandaríska tæknifyrirtækið Google ætlar að verja sem nemur 450 milljónum evra, jafnvirði tæpra 74 milljarða íslenskra króna, til að stækka gagnaver fyrirtækisins í Finnlandi. Anni Rokainen, sem stýrir rekstri Google í Finnlandi, segir í samtali við AP-fréttastofuna að nauðsynlegt sé að stækka gagnaverið þar sem eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækisins hafi aukist mikið.

Fréttastofan segir útgjöldin bætast við þær 350 milljónir evra sem Google varði til byggingar gagnaversins. Það er í byggingu sem áður hýsti pappírsverksmiðju í bænum Hamina í suðurhluta Finnlands. Við stækkunina munu starfa um 800 verkfræðingar og verktakar. Í gagnaveri Google í Finnlandi vinna nú þegar í kringum 125 manns, að stórum hluta verkfræðingar.

Ísland var á meðal þeirra landa sem komu til greina fyrir gagnaver Google á sínum tíma. Finnland varð hins vegar fyrir valinu. Gagnaverið tók til starfa árið 2011.