Stjórnendur netfyrirtækisins Google hafa tilkynnt að fyrirtækið stefni að skráningu á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn, en fyrirtækið er með eina fjölsóttustu leitarsíðu í heimi. Skráning Google á Nasdaq verður stærsta nýskráning tæknifyrirtækis á markað í Bandaríkjunum í nokkur ár og ljóst er að ákvörðun Google er viss ósigur fyrir NYSE (New York Stock Exchange). Samfara nýskráningunni munu $2,7 milljarðar hluta verða boðnir fjárfestum í opnu hlutafjárútboði. Bæði Nasdaq og NYSE hafa falast eftir Google en töluvert er síðan tilkynnt var um þau áform að skrá fyrirtækið á markað. Hvorki forvarsmenn Nasdaq né NYSE hafa tjáð sig um ástæður Google fyrir valinu en sérfræðingar hafa fremur hallast að undanförnu að Nasdaq yrði fyrir valinu.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að NYSE er stærsti hlutabréfamarkaður heims þar sem um 2.800 fyrirtæki eru skráð. Þar á meðal eru mörg stærstu fyrirtækja heims en samanlagt markaðsvirði fyrirtækja á NYSE nemur um $18.000 milljörðum (1.286.000 milljarðar kr.). Ólíkt NYSE er mjög hátt hlutfall fyrirtækja á Nasdaq tæknifyrirtæki af ýmsum toga, sum hver leiðandi fyrirtæki í heiminum, s.s. Microsoft, Intel og Yahoo. Ákvörðun Google gefur Nasdaq markaðnum meðbyr en forsvarsmenn Nasdaq vilja ólmir halda stöðu markaðarins sem helsta ,,tæknimarkaði heims".