Í dag, um þrettán árum eftir að Google var stofnað, er merkisdagur í sögu fyrirtækisins. Google, sem er ört vaxandi með yfir 30 þúsund starfsmenn, stofnaði til skulda í fyrsta skipti í sögu þess. Google á 37 milljarða dollara í peningum, 4.255 milljarða króna, og þarf því ekkert á því að halda að stofna til skulda. Skuldabréfaútgáfan er upp á um 3 milljarða dollara.

Haft er eftir David Trahan, bankamanni hjá Citigroup sem sá um skuldabréfaútgáfuna, í frétt Wall Street Journal að kjörin sem í boði voru hafi verið „of góð til þess að hafna þeim“. Fyrirtækið fær nánast sömu vexti og seðlabankinn, þ.e. lítið sem ekkert álag. Þegar peningarnir eru „því sem næst ókeypis“, eins og talað er um í frétt Wall Street Journal, þá borgar sig að stofna til skulda. Eða þannig líta forsvarsmenn Google á það. Hugsanlega eru þeir að undirbúa yfirtöku á fyrirtæki og vilja gera það með þessum hætti fremur en að eyða peningunum sínum, eða borga með hlutabréfum í Google. Það gerðu þeir þegar Google keypti Youtube 2006. Þá var borgað með hlutabréfum í Google upp á 1,65 milljarð dollara.