Bandaríska viðskiptaeftirlitsstofnunin um framvirka samninga hefur samþykkt beiðni LedgerX LLC, sem sérhæfir sig í viðskiptum með rafmyntir, um að fá að starfrækja miðstöð fyrir viðskipti með afleidda samninga á grunni rafmynta. Verður miðstöðin starfrækt undir reglum bandaríska alríkisins um viðskipti, í New York, og hyggst hún hefja söluna í september eða október.

Munu samningarnir miða við kauprétti sem ná einn til sex mánuði fram í tímann og miðast við skiptiverð milli Bitcoin og Bandaríkjadala, að því er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Paul Chou segir við Bloomberg fréttastofuna.

Líklegt er að í kjölfarið verði boðið upp á framvirka samninga með aðrar rafmyntir eins og Ethereum. Fyrirtækið nýtur stuðnings frá fjárfestingararmi Alphabet, móðurfélags Google, en markmið þess er að gefa fjárfestum kost á að verja sig gegn sveiflum í verðlagningu gjaldmiðilsins, líkt og þeir geta gert með aðrar eignir.

Er um að ræða fyrsta fyrirtækið sem hlýtur samþykkis bandarískra yfirvalda til að sjá um slík viðskipti en nokkur önnur hafa starfað utan við reglur. Þurfti Derivabit, viðskiptamiðstöð CFTC fyrirtækisins sem staðsett var í Kaliforníu að hætta viðskiptum árið 2015 því það fylgdi ekki reglum í landinu.