Íslenska einnota myndavéla smáforritið Lightsnap hefur í kjölfar góðs árangurs hér á landi hafið útrás til Svíþjóðar. Segja má að innreið forritsins á sænskan markað hafi farið vel af stað. Síðastliðinn fimmtudag var opnað fyrir þjónustu Lihgtsnap í Svíþjóð og fengu 2000 fyrstu notendur sem skráðu sig inn á smáforritið fría prufu „filmu“ í Lighsnap. Vegna gríðarlegs fjölda nýskráninga lokaði hýsingaraðili Lightsnap, Google, á nýskráningar þar sem þeir héldu að hafin væri netárás á netþjóna sína. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Aðeins 12 tímum eftir að hafa gefið appið út í Svíþjóð sprengdum við nýskráningarfjöldan hjá Google og mikil eftirvænting skapaðist þar sem fjöldinn allur af fólki hafði samband sem komast ekki inn í Lightsnap. Við hringjum  því í Google og reynum að leysa úr þessu en þeir svara að það hafi verið slökkt á okkur þar sem að grunur var á netárás á kerfið okkar,“ segir Guðmundur Egill Bergsteinsson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Lightsnap, í fréttatilkynningu.

Nýskráning í Lightsnap lá niðri í 12 tíma vegna ofangreinds en loks þegar vandamálið var leyst streymdi nýskráningar inn á ný.

„Við sáum að það væri tími til að skríða úr vöggunni á Íslandi og reyna fyrir okkur á stærri markað, og því settum við upp tengingar við prentsmiðjur og póstdreifingaraðila í Svíþjóð. Hrintum af stað áhrifavaldaherferð og viti menn Svíarnir hoppuðu svo sannarlega á vagninn,“ bætir Guðmundur við.

Lightsnap hefur nú yfir 4000 notendur á Íslandi og hefur prentað og sent notendum yfir 25.000 ljósmyndir á síðastliðnum 12 mánuðum.

„Markaðs planið okkar var að fylgja eftir árangri okkar á Íslandi þar sem við fórum inn í Frítt stöff hjá Nova og gáfum viðskiptavinum Nova fría prufu filmu. Þar sáum við að 46% þeirra sem fengu heimsendaprufu filmu enduðu að kaupa nýja filmu innan 7 daga og því ákváðum við að endurtaka leikinn í Svíþjóð,“ segir Guðmundur í tilkynningu.

„Hugmyndin spratt út frá því að ég og Guðmundur meðstofnandi vorum að ræða hvað það væri lítið um myndaalbúm í dag og að maður ætti þúsundir mynda vistaða eitthverstaðar á skýinu en enginn fær að sjá þær. Við ákváðum því að smíða Lightsnap til að leysa það vandamál,“ segir Adam Viðarsson, tæknistjóri og annar meðstofnandi Lightsnap, í fréttatilkynningunni.