20% af starfsmönnum Motorola, um 4.000 manns, verður sagt upp á næstunni auk þess sem 31 skrifstofu verður lokað af þeim 94 skrifstofum sem fyrirtækið rekur víða um heim. Þetta kemur fram í frétt New York Times.

Google sem er eigandi Motorola sendi frá sér tilkynningu um uppsagnirnar en þar kemur einnig fram að 40% af stjórnendum Motorola verður sagt upp. Samkvæmt tilkynningunni ætlar fyrirtækið að aðstoða starfsmenn við að finna sér ný störf. Google keypti Motorola í maí á þessu ári fyrir 12,5 milljarða dollara, um 1.500 milljarða íslenskra króna.

Um er að ræða eitt af fyrstu skrefum Google til að endurskipuleggja rekstur Motorola sem hefur átt erfitt uppdráttar í samkeppni á farsímamarkaði. Eins og flestir þekkja eru Apple og Samsung með yfirburðastöðu, sérstaklega hvað varðar sölu á snjallsímum.