Netrisinn Google tilkynnti á miðvikudaginn að fyrirtækið hygðist bjóða út nýtt hlutafé fyrir tvo milljarða dollara, 140 milljarða króna, en með því yrðu sjóðir félagsins af reiðufé og auðseljanlegum skuldabréfum yfir 10 milljarðar dollara.

Í yfirlýsingu sagði fyrirtækið að salan á þessum hlutum, sem yrðu 5,3 milljónir talsins og að andvirði 2,1 milljarðs dollara miðað við lokaverð á miðvikudaginn, væri að hluta til ætluð til að mæta aukinni eftirspurn frá vísitölutengdum hlutabréfasjóðum. Tilkynnt var í síðustu viku að fyrirtækið yrði þátttakandi í S&P 500 vísitölunni. Síðan þá hefur verð bréfa í félaginu hækkað um 15% og unnið upp lækkun undanfarinna vikna og mánaða. Lokaverð á miðvikudaginn var rétt undir 395 dollurum. Fréttirnar af þessari fyrirhuguðu útgáfu Google urðu til þess að gengið féll um 3% eftir lokun markaða á miðvikudaginn.

Þetta yrði í annað skipti á fáum mánuðum sem fyrirtækið gæfi út aukið hlutafé og myndi verða því stoð í aukinni fjárfestingu og samkeppni við Microsoft, sem hefur farið harðnandi að undanförnu. Í fyrra nam útgáfan fjórum milljörðum dollara, sem tvöfaldaði reiðufé félagsins og leiddi til þess að vangaveltur fóru af stað um að það hygðist taka félög yfir. Síðan þá hefur Google ákveðið að kaupa 5% hlut í AOL og borga einn milljarð dollara fyrir, en gengið var frá samningum þess efnis á miðvikudaginn.