Fyrirhuguð yfirtaka tölvurisans Microsoft Corp. á vefleitarfyrirtækinu Yahoo Inc. myndi vera til þess fallin að auka samkeppni í vefleit og auglýsingum þeim tengdum, frekar en að útrýma henni. Þetta sagði Steve Ballmer, framkvæmdarstjóri Microsoft á fjölmiðlafundi á dögunum.

Yfirtakan hljóðar upp á yfir 2.700 milljarða króna og segir Ballmer að ef af yfirtökunni yrði myndi skapast sterkur keppinautur í öðru sæti á eftir Google Inc.

„Google hefur klárlega leiðandi stöðu á markaðnum, en þeir eru með um 75% markaðshludeild í leitarþjónustu á auglýsingamarkaði á heimsvísu. Við teljum að þessi yfirtaka myndi bæta samkeppnisumhverfið, frá þeim sjónarhóli væri æskilegt að yfirtakan næði fram að ganga," segir Ballmer.

Nánar er fjallað um hugsanlega yfirtöku Microsoft á Yahoo í helgarblaði Viðskiptablaðsins.