Tæknirisinn Google hefur valið upplýsingatæknifyrirtækið Origo sem samstarfsaðila á Íslandi fyrir skýjalausnir og G Suite fyrirtækjalausnir. Samstarfið tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgengi að sérfræðingum í þróun, innleiðingu og rekstri Google lausna.

Google er eitt af allra stærstu vörumerkjum heimsins og leiðandi í þróun tæknilausna fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Um einn milljarður notar lausnir Google um heim allan. Flestir þekkja vörur eins og Google leitarvélina, Youtube, Android, Maps, Chrome vafrann og G-Mail.

Google er einnig leiðandi í hönnun á skýjaþjónustu, gagnaöryggi, gervigreind og leggur áherslu á opna staðla sem nýtast forriturum við þróun Google lausna og viðbóta. Þá býður Google fyrirtækjum G Suite, sem er samheiti yfir lausnir er búa yfir tölvupósti, dagatali, Google+ fyrir samskipti, Drive fyrir geymslu, skjöl, skyggnur og aðra þjónustu sem eru sérsniðin að þörfum fyrirtækja.

,,Samstarfið er mikilvæg viðbót í lausnaframboð Origo og í því felast mjög áhugaverð tækifæri og ávinningur fyrir fyrirtæki á Íslandi. Við getum nú veit okkar viðskiptavinum aðgang að nýjungum og reynslumiklum sérfræðingum Google við þróun, innleiðingu og rekstri skýja- og hugbúnaðarlausna. Origo mun leggja áherslu á að bjóða viðskiptavinum lausnir við hæfi hvers og eins, hvort sem það er hjá viðskiptavini, í blönduðu umhverfi eða í fjölskýjaumhverfi (multi cloud). Google er því frábær viðbót við lausnaframboð Origo með skýjalausnum frá Microsoft, IBM, Amazon ofl. þar sem hagsmunir viðskiptavina eru í forgangi," segir Finnur Oddsson forstjóri Origo.

Finnur segir að einkenni Google sé einfaldleiki og hagræði auk þess sem notendur greiði eingöngu fyrir þá þjónustu sem þeir nýta.

,,Ekki sakar að skýjaþjónusta Google hefur lægstu truflanatíðni meðal skýjalausna samkvæmt greiningaraðilunum Gartner, en í rekstri upplýsingakerfa skiptir áreiðanleiki öllu," segir Finnur.

Hann segi að næsta kynslóð skýjaþjónustu verði byltingarkennd og þar muni gervigreind leika stórt hlutverk. Lausnir á borð við og App Engine, Anthos, Kubernetes, BigQuery, TensorFlow og Machine Learning munu breyta meðhöndlun gagna og þarf gríðarlega öflug kerfi til þess að meðhöndla þær. Þar ætlar Google sér stórt hlutverk, segir Finnur. Google nýtir um 40% af allri netumferð um heiminn fyrir lausnir sínar. Fyrirtækið rekur eigið net með yfir 150.000 km af ljósleiðurum og hefur yfir að ráða rúmlega 60 gagnaver víðsvegar um heiminn. Þá uppfylla lausnir Google alla helstu öryggisstaðla, m.a. GDPR, HIPAA, NIST ofl., og eru öll gögn á kerfum Google dulkóðuð.