Google er verðmætasta vörumerki heims samkvæmt úttekt WPP og MillwardBrown, sem gefur á hverju ári út könnun á vinsælustu vörumerkjum heims. Vörumerki Google er nú talið 158,8 milljarða dala virði, en markaðsvirði fyrirtækisins var í vikunni um 360 milljarðar dala.

Apple fylgir fast á hæla Google og er vörumerkið talið 147,9 milljarða dala virði. Munurinn á fyrirtækjunum tveimur er hins vegar sá að virði vörumerkis Google er talið hafa aukist um 40% í fyrra á meðan virði Apple lækkaði um 20% á sama tíma.

Í næstu sætum eru IBM með 107,5 milljarða og Microsoft með 85,7 milljarða. Coca Cola, sem lengi var verðmætasta vörumerki heims, er nú metið á um 80,7 milljarða dala. WPP er samstarfsaðili Cohn & Wolfe almannatengslaskrifstofu á Íslandi.