Stjórn bandaríska fyrirtækisins GoPro , sem framleiðir samnefndar myndavélar, lýsti því yfir í dag að fyrirtækið stefni á að skrá hlutabréf félagsins á Nasdaq-markaðinn. Stefnt er að því að selja hlutabréf fyrir rúmlega 100 milljónir dala, jafnvirði um 11 milljarða íslenskra króna.

Á sama tíma og stjórn fyrirtækisins lýsti fyrirætlun sinni þá var uppgjör fyrirtækisins birt. Niðurstaðan var sú að fyrirtækið hagnaðist um 60,6 milljónir dala á síðasta ári sem var næstum tvöfalt meiri hagnaður en árið 2012. Tekjur námu 986 milljónum dala sem var fjórföldun á milli ára.

Fyrsti ársfjórðungur á þessu ári var hins vegar ekki jafn góður og í fyrra eða 11 milljónir í stað 23 milljóna. Tekjur lækkuðu sömuleiðis lítillega. Þær námu 255 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi árið 2013 en voru 236 milljónir nú.