Mikhail Gorbachev, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, segir að Rússlandi standi frammi fyrir meiri og hættulegri aðstæðum en nokkru sinni fyrr og gæti verið á leið inn í svarthol. Þetta kemur fram í FT, sem segir að Rússland standi frammi fyrir frekari óróa innanlands á sama tíma og rúblan nær nýju lágmarki gagnvart evrunni eftir aðgerðir yfirvalda til að lækka gengið.

FT segir að lækkun rúblunnar í gær hafi lengt sex vikna gengislækkun rússneska seðlabankans, sem sé ætlað að vega á móti áhrifum alþjóðlegu efnahagskreppunnar og lækkandi olíuverðs. Olía er helsta útflutningsvara landsins og nálgast nú sitt lægsta verð frá árinu 2004.

Ríkisstjórnin hefur sætt vaxandi gagnrýni og mótmæli í Vladivostok fyrr í mánuðinum voru fyrstu stóru erfiðleikarnir af því tagi frá því fjármálakrísan hófst.

Þögult samkomulag stjórnvalda og almennings fallið úr gildi

Mikhail Kasyanov, fyrrverandi forsætisráðherra sem leiðir nú einn af stjórnarandstöðuflokkunum, sagði í samtali við FT að þögult samkomulag á milli stjórnvalda og almennings um að skipta á stjórnmálaréttindum og velmegun sé nú fallið úr gildi.

Stjórnvöld í Moskvu hafa gefið fyrirheit um að verja 200 milljörðum dala til að draga úr áhrifum niðursveiflunnar, en að sögn FT eru efasemdir uppi um að fénu verði deilt út með gegnsæjum hætti.