Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands mun í þriggja daga ferð sinni til Bandaríkjanna hitta bankastjóra á Wall Street og biðja þá um að gera úrbætur í skýrslugjöf sinni um afkomu bankanna og taka upp markvissari aðferðir við að afskrifa skuldir sínar en Brown hitti í gær breska bankastjóra og hvatti þá til að gera það sama.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að fundurinn hafi verið liður í viðleitni ráðherrans til að lækka lánakostnað sem hækkaði stórkostlega í kjölfar alþjóðlegu lánakrísunnar og leiddi meðal annars til þessa að Breska ríkisstjórnin þjóðnýtti Northern Rock.

Forsætisráðherrann sagði að lánakrísan hefði orsakast af vanmati á áhættu og ófullnægjandi skýrslugjöf um hana og starfsemi utan efnahags, ófullnægjandi lánshæfismati og skorti á markvissri upplýsingagjöf um afskriftir.

Þá kemur fram á fréttavef BBC að Brown telji nauðsynlegt að tap fjármálafyrirtækja sé gert upp sem fyrst til að hægt sé binda endi á þá krísu sem ríkt hefur undanfarið.

Brown mun í ferð sinni hvetja bæði fjármálafyrirtæki og ríkisstjórnir til að beita sér fyrir aðgerðum til að bregðast við lausafjárvanda, meðal annars með því að lækka lánakostnað.

Þá mun Brown hitta George Bush, forseta Bandaríkjanna, á morgun og Ben Bernanke, bankastjóra bandaríska seðlabankans síðar í vikunni. Brown mun einnig hitta væntanlega forsetaframbjóðendur þau Barack Obama, Hillary Clinton og John McCain til að ræða samskipti Bretlands og Bandaríkjanna.