David Cameron tekur gjarnan á móti gestum sem koma í Downingstræti 10 í herbergi sem snýr í átt að St James´s garðinum. Nýlega var nafni herbergisins breytt úr Hvíta herberginu í Thatcher herbergið. Að auki hefur verið komið fyrir málverki af Járnfrúnni á einum vegg þess.

Þetta kemur fram á bloggi stjórnmálaskýranda Guardian á vef blaðsins.

Það kemur eflaust flestum á óvart að það var Gordon Brown sem endurnefndi herbergið en ekki samflokksmaður Thatcher, David Cameron. Gordon gerði þetta Thatcher til heiðurs, konunni sem barðist við verkalýðsfélögin, einkavæddi breskan iðnað, seldi félagslegar íbúðir, minnkaði umsvif hins opinbera og sigraði Verkamannaflokkinn aftur og aftur.

Að sögn Rawnsley finnst Cameron nærvera Thatcher ekki endilega þægileg. Cameron hefur sagt að honum finnist augu Thatcher fylgja honum eftir í herberginu.