Breski íhaldsmaðurinn David Cameron sakar Gordon Brown forsætisráðherra í nýársskilaboðum sínum um að varpa sprengjum á breska efnahagskerfið á sama tíma og hann hvetur þjóðina til leiftursóknar. Hann sé því í sama hlutverki og þýski flugherinn í heimsstyrjöldinni síðari.     Greint er frá því á vefsíðu Telegraph.co.uk að Cameron hafi ráðist hart að Brown fyrir skírskotanir hans í Sir Winston Churchill á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Verkamannaflokkurinn sé nú að taka hundruð milljarða punda að láni til að fjármagna tímabundinn skattaniðurskurð og áframhaldandi eyðslu. Þær lántökur muni auka skuldir þjóðarinnar í eina billjón punda þar sem vextir verða hærri en öll útgjöld til hermála.   “Forsætisráðherrann segir okkur að efla andann til leiftursóknar, á sama tíma og hann er sjálfur að varpa sprengjunum. Skattar og sprengjuregn eru að steypa Bretlandi í gjaldþrot.”   Sagði Cameron ríkistjórnina vera búna að týna sínum “móralska” áttavita og spurði hvaða siðferði væri í því að steypa börnunum í skuldir. “Hvar er siðferðið þegar fólki sem skuldar þegar of mikið er hvatt til að taka örlítið meira að láni?” Cameron segir að það sé hagur þjóðarinnar að verkamannaflokkurinn hverfi frá völdum eins fljótt og auðið er. Flokkurinn sé spilltur af valdi og hroka og sjái ekki eigin mistök og geti því ekki leiðrétt þau.