Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, býst við evruríkin muni kljást við mikla erfiðleika á fyrstu mánuðum næsta árs. Í viðtali við Robert Peston, viðskiptaritstjóra BBC, segir Brown að erfiðleikar evrunnar séu mun dýpri en skuldir ríkjanna.

Hann sagði að skuldir evrópskra banka, þar á meðal þeirra bresku, séu gríðarlegar og að eignasöfn þeirra stæðu ekki undir skuldum í dag ef kæmi til mikilla afskrifta.

Í frétt BBC segir að varnarorð Brown endurómi afstöðu írsku stjórnarandstöðunnar en hún sakar Evrópusambandið um að hafa þvingað írsk stjórnvöld til að þiggja neyðaraðstoð. Hart hafi verið lagt að Írum að samþykkja aðstoðina til að koma í veg fyrir að vanræði Íra dreifist til annarra landa.