Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, segist vænta þess að Sádi-Arabía hjálpi til við fjármögnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF).

Ýmis lönd hafa neyðst til að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að undanförnu vegna fjármálakreppunnar.

Brown hvetur lönd sem hafa yfir miklu fjármagni að ráða, t.d. olíuframleiðsluríki á borð við Sádi-Arabíu, til að leggja sitt af mörkum til að styrkja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„Sádi-Arabar munu, held ég, leggja sitt af mörkum til að stækka sjóðinn,“ sagði Brown blaðamönnum í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. „Olíuframleiðsluríki, sem hafa þénað meira en 1 billjón Bandaríkjadala vegna hækkandi olíuverðs á undanförnum árum, geta stutt sjóðinn.“

Sjóður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nam í lok ágúst sl. 201 billjónum Bandaríkjadala. Síðan þá hefur Íslandi, Úkraínu, Ungverjalandi og Hvíta-Rússlandi verið boðið lán frá sjóðnum og ýmis önnur lönd eru í viðræðum um lántöku.

Talið er að lítið geti orðið eftir af lánsfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins leiti mörg önnur ríki eftir hjálp.

Reuters greindi frá.