Gera má ráð fyrir 6,1% hagvexti í ár sem er umtalsvert meiri vöxtur en verið hefur að meðaltali undanfarin 10 ár. Þetta er einnig mun hraðari vöxtur en nú er í helstu viðskiptalöndum okkar, en í ríkjum OECD er spáð 2,6% hagvexti að jafnaði í ár. Útlit er fyrir að nokkuð hægi á hagvexti á næsta ári og að vöxturinn verði 4,2%. þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá sem Greining Íslandsbanka hefur sent frá sér.

Þar kemurfram að rætur vaxtarins munu líkt og í ár fyrst og fremst vera í miklum fjárfestingum og aukningu einkaneyslu sem drifin er áfram af aukningu kaupmáttar, háu gengi krónunnar, lágum vöxtum og miklum hækkunum eignaverðs. Áhrif stóriðjuframkvæmda eru mikil, sem og áhrif markaðsvæðingar og opnunar hagkerfisins. Ytri skilyrði eru á margan hátt góð þar sem fiskverð er hátt og erlendir vextir lágir. Á móti kemur hátt olíuverð og hægur vöxtur í mörgum af helstu viðskiptalöndunum segir í spá Greiningar Íslandsbanka.

"Hagvöxtur í ár og á næsta ári reynir mjög á þanþol hagkerfisins. Merki ofþenslu sjást orðið víða. Má þar nefna verðbólgu sem mælist nú 4,8%. Reikna má með því að verðbólgan eigi eftir að verða enn meiri á næsta ári og fara í nær 8% á árinu 2007. Viðskiptahalli hefur einnig aukist hratt og stefnir í að verða tæplega 13% af landsframleiðslu þetta árið og fara yfir 13% á næsta ári. Viðskiptahalli af þessari stærðargráðu er merki um mikið ójafnvægi þjóðarbúsins og myndar viðvarandi þrýsting til lækkunar gengis krónunnar. Viðskiptahallinn er ein helsta ástæða þess að við reiknum með allt að 25% gengislækkun krónunnar á næstu tveimur árum," segir í spánni.

Þar er bent á að það þensluástand sem nú ríkir í efnahagslífinu reynir verulega á hagstjórnarsamspil Seðlabankans og hins opinbera. Seðlabankinn hefur brugðist við horfum um vaxandi verðbólgu með vaxtahækkunum. Stýrivextir bankans eru nú 9,5% og má reikna með því að bankinn hækki þá í 10% fyrir lok þessa mánaðar. Líkur eru á því að bankinn láti ekki þar við sitja heldur hækki vexti sína upp í 11% í 2 til 3 skrefum snemma á næsta ári. Aðhald í opinberum fjármálum hefur aukist nokkuð og þannig stutt peningastefnuna. Aðhaldið hefur hins vegar verið langt frá því nægjanlegt til að halda hagkerfinu í viðunandi jafnvægi og koma í veg fyrir ruðningsáhrif yfirstandandi stóriðjuframkvæmda og eftirspurnarþrýstings.