Heildartekjur ríkissjóðs námu 228,7 milljörðum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins og hækkuðu um 17,2 milljarða frá sama tíma í fyrra eða um 8,1%. Hækkun skatttekna frá fyrra ári nam 14,9% sem jafngildir 11,6% raunhækkun. Að lang stærstum hluta skýrist betri afkoma af því að skattar á tekjur og hagnað námu 66,9 milljörðum króna og hækkuðu um 11 milljarða frá sama tíma í fyrra. Þannig eru tveir þriðju hluta aukningar í skatttekjum ríkissjóðs runnar undan mikilli hækkun á eignamörkuðum en samkvæmt eignaverðsvísitölu Greiningardeildar KB banka hefur eignaverð hækkað um 23% að raunvirði og hafa eignaverðs hækkanir sjaldan eða aldrei verið meiri.

Tekjuskattur einstaklinga hækkaði um 5,5, milljarða, tekjuskattur lögaðila um 4,2 milljarða og fjármagnstekjuskattur um 1,3 milljarða króna. Innheimta eignaskatta jókst einnig frá síðasta ári eða um 25,9% sem jafngildir 22,2% raunhækkun. "Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti jukust um 8,8 milljarða . Þetta endurspeglar áframhaldandi aukin umsvif í efnahagslífinu, einkum í neysluútgjöldum heimilanna," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka