Útlit er fyrir að söluverðmæti uppsjávarfisks í Noregi á þessu ári fari langt fram úr fyrri áætlunum og muni nema 5,7 milljörðum norskra króna (jafnvirði 114 milljarða íslenskra króna samkvæmt núverandi gengi Seðlabanka Íslands).

Ástæðan er meðal annars sú að verð á makríl og síld hefur haldist hátt þrátt fyrir að kvótar hafi aldrei verið stærri en nú. Einnig hefur löndunum erlendra uppsjávarskipa í Noregi fjölgað.

Þetta er þó ekki metár í verðmæti uppsjávarfisks í Noregi því árið 2002 náði það 6,3 milljörðum norskra króna, fyrst og fremst vegna hás síldarverðs, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.