Árið 2001 keypti Ásberg Jónsson, þá 22 ára, tíu reiðhjól og byrjaði að leigja þau út til ferðamanna. Ári síðar opnaði hann ásamt frænda sínum Pálma Jónssyni litla söluskrifstofu í Lækjargötu og hóf sölu á dagsferðum. Þetta var upphafið að fyrirtæki hans Nordic Visitor.

Í dag er það ein stærsta ferðaskrifstofa landsins með meira en 70 manns í vinnu. Aðalsöluvara fyrirtækisins eru skipulagðar ferðir til Íslands, oft nefndar pakkaferðir, til erlendra ferðamanna sem vilja tryggja að þeir fái sem mest út úr heimsókn sinni til landsins. Þá skipuleggur Nordic Visitor mikinn fjölda fyrirtækjaferða til Íslands hvert ár auk fjölbreyttra hóp- og pakkaferða til annarra Norðurlanda og veltir sú starfsemi sem fram fer utan Íslands tæpum milljarði króna.

„Fyrst þegar ég var í þessu spurði fólk mig hvað í ósköpunum ég væri að gera í ferðaþjónustu og menn skildu ekkert af hverju ég færi ekki að vinna í banka fyrst ég var kominn með viðskiptafræðigráðu,“ segir Ásberg. Rekstur fyrirtækisins hafi verið þungur fyrstu árin og lengi hafi verið tvísýnt hvort fyrirtækið myndi hafa það af. Ásberg missti þó aldrei móðinn.

Tilbúin með neyðaráætlun

Ásberg flutti um tíma til Bretlands til að opna verslun þar í landi og tók sér stutt hlé frá daglegum rekstri Nordic Visitor. Eftir hrun sá hann hins vegar að með lækkandi gengi krónunnar fælust nú aftur mikil tækifæri í ferða- þjónustu á Íslandi, svo hann sneri heim og fór á fullt með Nordic Visitor á nýjan leik. Hann sér ekki eftir því. Starfsemin og geirinn í heild sinni varð hins vegar fyrir miklu áfalli þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010.

„Það var svakalegt högg sem við fengum þegar Eyjafjallajökull gaus. Það ár var mjög erfitt í rekstri, en svona eftir á að hyggja var þetta kannski blessun. Maður sá það ekki þá, en þetta var auðvitað mikil landkynning,“ segir Ásberg og viðurkennir að Nordic Visitor hafi gert neyðaráætlun komi til eldgoss í Kötlu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .